Billie Jean King: Ísland-Írland

Ísland keppti í dag (miðvikudaginn 16.júní) á móti Írlandi í D riðli á heimsmeistarmótinu í liðakeppni sem haldið er í Vilnius, Litháen 15-19. júní.

Írarnir voru aðeins of stór biti fyrir Íslenska liðið og vann viðureignina 3-0. Þetta kemur svo sem ekkert óvart þar sem Írarnir eru með gríðarlega sterkt lið og spáð sigri í D-riðli.

Anna Soffía Grönholm spilaði nr.2 fyrir Ísland gegn Celine Simunyu. Hún tapaði leiknum 6-2 6-1 en átti þó fínar rispur og nokkur tækifæri til að gera leikinn jafnari. Anna komst 2-0 yfir í seinna settinu eftir sniðugt spil en þá setti Celine í næsta gír og kláraði leikinn af með forhöndinni sinni sem var vægast sagt í kraftmeiri kantinum.

Sofia Sóley Jónasdóttir spilaði nr.1 fyrir Ísland gegn Önnu Bowtell sem spilar nr.1 fyrir Rice University í USA. Hún þurfti að lúta í lægra haldi 6-2 6-0. Sofia byrjaði leikinn af miklum krafti og komst í stöðuna 2-2. Anna Bowtell gerði þó ekki mörg mistök eftir það og var erfitt fyrir Sofiu að finna einhvern takt gegn svakalegum höggþunga þeirrar írsku.

Í tvíliðaleiknum spiluðu Sofia Sóley Jónasdóttir og Hera Björk Brynjarsdóttir fyrir hönd Íslands gegn Sophiu Derivan og Shaunu Heffernan. Þær írsku spiluðu einn besta tvíliðaleik sem ég hef séð á mótinu og unnu leikinn 6-0 6-1. Sofia og Hera áttu þó hinn fínasta leik sem er undarlegt að segja miðað við stöðu leiksins. Þær fengu þó nokkuð marga leikbolta en náðu því miður ekki að nýta sér tækifærin í dag.

Á morgun spilar Ísland gegn Ghana um þriðja sæti riðilsins. Hægt er að fylgjast með stöðunni á “livescore” á þessum tengli.

Áfram Ísland!!!!