Billie Jean King Cup 2021 – Ísland-Armenía

Íslenska Kvennalandsliðið er mætt til Vilnius í Litháen að keppa á heimsmeistaramótinu í liðakeppni Europe / Africa group III. Mótið gengur undir nafninu “Billie Jean King Cup” (áður þekkt sem Federation Cup) og verður haldið yfir dagana 15-19 júní.

Liðið samanstendur af eftirfarandi leikmönnum:
Sofia Sóley Jónasdóttir
Hera Björk Brynjarsdóttir
Anna Soffía Grönholm
Sandra Dís Kristjánsdóttir

Þjálfari: Jón Axel Jónsson

  

Eftirfarandi 21 þjóðir taka þátt:

Algeria, Albanía, Armenía, Azerbaijan, Bosnía Herzegovina, Kýpur, Ghana, Ísland, Írland, Kenía, Kósóvó, Litháen, Malta, Svartfjallaland, Namibía, Nígería, Norður Makedónía, Noregur, Rwanda, Suður Afríka og Zimbabwe.

Mótinu verður skipt niður í 6 riðla þar sem öll liðin munu spila gegn hvort öðru í “round robin” kerfi sem leiðir svo í umspil gegn liðum annarra riðla. Kepptir eru tveir einliðaleikir og einn tvíliðaleikur í hverri viðureign.

Íslenska liðið var dregið í Riðil D ásamt Írlandi, Armeníu og Ghana.

Fyrsti leikur Íslenska liðsins var í dag (þriðjudaginn 15. júní) gegn sterku liði Armeníu sem er álitið næst sterkasta lið riðilsins samkvæmt ITF styrkleikalistanum.

Hera Björk Brynjarsdóttir spilaði nr.2 einliðaleikinn fyrir hönd Íslands gegn Irenu Muradyan og þurfti lúta í lægra haldi 6-2 6-0. Hera byrjaði vel en náði svo ekki að halda taktinum og andstæðingurinn nýtti sér það. Í seinna settinu átti Hera þó nokkuð marga lotubolta en náði því miður ekki að nýta tækifærin. Erfiður fyrsti leikur fyrir Heru gegn feykisterkum andstæðing sem gaf því miður ekki mörg færi á sér.

Sofia Sóley Jónasdóttir spilaði nr.1 einliðaleikinn fyrir Ísland gegn Gabriellu Akopyan og tapaði í hörkuleik 5-7 1-6. Sofia byrjaði ekki alveg nógu vel og lenti 2-5 undir en fann þó loksins taktinn og tókst að snúa stöðunni úr 2-5 í 5-5. Hún tapaði þó settinu 5-7 eftir tvær svakalega jafnar lotur. Seinna settið var einnig mjög jafnt þó svo staðan segi annað. Sofiu tókst því miður ekki að nýta sér leikboltana og tapaði settinu 6-1.

Anna Soffía Grönholm og Hera Björk Brynjarsdóttir spiluðu tvíliðaleikinn fyrir Ísland. Þær þurftu því miður að lúta í lægra haldi fyrir Milenu Gevorgian og Arevik Turmanyan 6-7(5), 2-6 í hörkuleik. Hera og Anna spiluðu frábærlega í fyrra settinu og komust 5-3 yfir og með smá heppni hefðu þær auðveldlega geta gert út um settið. Fyrsta settið endaði þó í oddalotu þar sem Armenía tók mikilvægu stigin frá stöðunni 4-4 og vann tiebreak-ið 7-5. Eftir erfitt tap í fyrra settinu áttu íslensku stelpurnar ansi erfitt með að finna taktinn í seinna settinu og töpuðu 2-6.

Smá spenna í íslenska liðinu sem er þó mjög eðlilegt á fyrsta keppnisdegi mótsins. Á morgun tekur við mjög erfið viðureign gegn Írlandi sem er álitið sterkasta lið riðilsins.

Áfram Ísland!!!!!!!!!!!