Andlát: Hjálmar Aðalsteinsson

Nokkrir félagar mæla sér mót í tennis. Veðrið er ekki upp á það besta, það er rigningarsuddi og það gustar. Kannski er bara best að sleppa þessu. Þá kemur hjólandi út úr rigningunni sterklegur maður með bros á vör geislandi af lífsgleði. Hjalli er mættur, tilbúinn í slaginn og er ekki mikið að kippa sér upp við náttúruöflin og hrífur alla með sér. Hjólið var var hinn eðlilegi ferðamáti Hjalla alla tíð og var hann með alls kyns praktískan búnað sem nýttist vel.

Hjálmar Kr. Aðalsteinsson var frábær íþróttamaður og hóf að leika tennis á unga aldri. Tennisvellir voru fáir á þeim árum en Hjalli lét það ekki á sig fá og spilaði ásamt fleirum á malbiksvelli í Vallargerði í Kópavogi. Svo duglegur var hann að æfa sig að hann spólaði upp nokkrum pörum af skóm á hverju sumri á malbikinu. Hann hafði einkar fastar uppgjafir og muna félagar hans eftir að þurfa að sækja tennisboltana inn í nærliggjandi garða þegar honum tókst vel upp. Hjalli lét kappið aldrei bera fegurðina ofurliði og var þekktur fyrir fallegan leik og drengilegan, úrslitin skiptu minna máli. Hann var um árabil einn besti tennisleikari landsins. Hann var einnig frábær borðtennisleikari og varð Íslandsmeistari í þeirri grein.

Hjalli sótti nám í háskóla í Kaupmannahöfn þar sem hann var einn fyrsti Íslendingurinn sem sérhæfði sig í tennisþjálfun. Hann bjó í nokkur ár í Kaupmannahöfn og spilaði tennis bæði þar og hér heima. Þegar hann kom heim til Íslands var hann ráðinn útbreiðslustjóri Tennissambandsins.  Hann var einkar farsæll á því sviði og fór m.a. fjölda æfinga- og keppnisferða með hópa ungra tennisleikara til útlanda sem fararstjóri og byggði upp sterk tengsl við tennisfélög í Danmörku sem við njótum enn góðs af.

Hjalli var kennari af Guðs náð og var alltaf að miðla af þekkingu sinni og reynslu.  Hann kynnti sér og miðlaði nýrri tækni í íþróttinni og þekkti manna best kosti og galla nýrra spaða og strengja.

Hann þjálfaði yngri landslið Íslendinga árum saman og margir af bestu tennisleikurum landsins hafa notið leiðsagnar hans.

Hjalli var um áratugaskeið íþróttakennari við Hagaskóla og þar lét hann setja línur á gólf íþróttahússins og koma upp aðstöðu utandyra til tennisiðkunar. Þar sem aðrir sáu aðstöðuleysi, þar sá hann tækifæri! Jákvæðni hans og sterk útgeislun höfðu mikil áhrif á alla í kringum hann.

Tennissamband Íslands stendur í mikilli þakkarskuld við Hjalla.  Hann var ávallt stórhuga og þegar upp komu hugmyndir um að byggja nýtt tennishús á Íslandi kom nafn hans ávallt upp sem ráðgjafi og hugmyndasmiður.  Hjalli var nýverið sæmdur æðsta heiðursmerki Tennissambands Íslands fyrir frábær störf fyrir tennisíþróttina á Íslandi.

Við hjá Tennissambandi Íslands samhryggjumst fjölskyldu Hjalla á erfiðum tímum. Genginn er drengur góður.