Smáþjóðaleikar San Marino 2017 – Íslenska liðið lýkur keppni

Ísland lauk keppni sinni á Smáþjóðaleikunum í San Marino síðastliðinn föstudag. Jón-Axel Jónsson, landliðsþjálfari, var þar staddur með liðinu.

Íslenska liðinu tókst því miður ekki að knýja fram neina sigra í þetta skiptið, enda um gríðarlega sterkt mót að ræða. Einn dagur til að aðlagast leirvöllunum og hitanum var heldur ekki alveg nægilega mikill tími fyrir Íslenska liðið.

Fyrsta umferðin í einliðaleik, bæði kvenna og karlaflokki, var spiluð síðastliðinn þriðjudag.

Birkir Gunnarsson tapaði 6-3, 6-3 á móti Neos Eleftherios frá Kýpur sem var “seed 3” í mótinu og nr. 1408 á ATP heimslistanum. Birkir átti góða möguleika í 2. setti þar sem hann leiddi 3-1 með uppgjöf en náði því miður ekki að nýta tækifærið og tapaði settinu á endanum 6-3. Flottur leikur hjá Birki þar sem hann náði virkilega að stríða Kýpurbúanum.

Rafn Kumar keppti á móti heimamanninun Marco De Rossi á “center court” fyrir framan mikið af áhorfendum. Hann þurfti því miður að lúta í lægra haldi 6-3 6-3 í hörkuleik. Í stöðunni 4-3 í fyrra setti, átti sér því miður stað gríðarlega stór dómaramistök sem leiddu til þess að Rafn tapaði uppgjafalotu sinni. Eftir þessi mistök átti hann erfitt með að endurheimta fulla einbeitingu og missti leikinn frá sér. Marco De Rossi var nr. 1639 á ATP heimslistanum í fyrra.

Hera Björk Brynjarsdóttir tapaði gegn Francesca Curmi frá Möltu 6-0 6-2 þar sem hún átti nokkra möguleika í byrjun seinna setts. Í heildina litið hefði hún getað farið í mun jafnari leik en náði því miður ekki að finna sitt besta form. Curmi hefur verið meðal fremstu spilara Evrópu í unglingaflokkum undanfarin ár.

Anna Soffía Gronholm þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Judit Alana Cartana frá Andorra í mjög jöfnum leik 6-4 7-6. Í öðru setti leiddi hún 5-2 og átti góðan möguleika á að klára settið en missti því miður forystuna niður og tapaði 6-7 í oddalotu.

Í tvenndarleik töpuðu Birkir og Hera 6-1 6-2 gegn þeim Matthew Asciak og Elaine Genovese frá Möltu sem eru bæði í kringum 1200 á heimslistanum og má því teljast gríðarlega sterkt lið.

Í tvíliðaleik karla þurftu Birkir og Rafn Kumar að lúta í lægra haldi fyrir þeim Menelaos Efstathiou og Neos Eleftherios frá Kýpur 6-3, 6-3. Þeir eru báðir i kringum 1500 i heiminum i tvíliðaleik og má til gamans geta að þeir stóðu uppi sem sigurvegarar mótsins.

Í tvíliðaleik kvenna töpuðu þær Hera og Anna gegn Sterku liði Möltu 6-0 6-4. Elaine Genovese er nr. 1200 i heiminum og Francesca Curmi hefur verið meðal fremstu spilara Evrópu í unglingaflokkum. Í öðru settinu spiluðu Hera og Anna gríðarlega vel og leiddu 4-3 og áttu góða möguleika á að vinna settið en náðu því miður ekki að nýta tækifærið gegn feykisterku liði Möltu.

Íslenska kvennaliðið keppti svo um bronsið gegn þeim Martinu Agarici og Gioia Barbieri frá San Marino þar sem mikið af áhorfendum höfðu safnast saman til að styðja heimaliðið. Við þurftum því miður að lúta í lægra haldi 6-4 6-3 í hörkuleik.

Þar með lauk þátttöku Íslenska tennisliðsins á Smáþjóðaleikunum í San Marino.