Armensku stelpurnar voru of sterkar fyrir þær íslensku

Ísland átti í erfiðleikum með feiknarsterkt lið Armeníu

Ísland átti í erfiðleikum með feiknarsterkt lið Armeníu

Ísland spilaði annan leik sinn í riðlinum á móti Armeníu í dag og tapaði 3-0. Armenska liðið var einfaldlega of sterkt fyrir Ísland sem fann ekki alveg taktinn í dag. Þá átti armenska stelpan Ani Amiraghyn, sem er númer 603 í heiminum, mjög öflugan dag bæði í einliða- og tvíliðaleik.

Anna Soffia Grönholm spilaði fyrsta leikinn fyrir Ísland á móti Lusine Chobanyan sem spilar númer 2 fyrir Armeníu. Anna Soffia tapaði 6-1 og 6-1.

Hera Björk Brynjarsdóttir spilaði annan leikinn fyrir Ísland á móti Ani Amiraghyn sem átti stórleik og sigraði Heru Björk örugglega 6-0 og 6-0.

Í tvíliðaleiknum spiluðu Anna Soffia og Hera Björk á móti Lusine Chobanyan og Ani Amiraghyan. Armensku stelpurnar sigruðu 6-0 og 6-1.

Á morgun er frídagur þannig að íslenska liðið fær tíma til að æfa sig og stilla saman strengi fyrir föstudaginn. Þá spilar Ísland við gríðarlega sterkt lið Makedóníu sem vann Írland 2-1 í dag og er því búið að vinna alla leiki sína í riðlinum.