Tennismaður og tenniskona ársins 2016

Reykjavík, 12.12.2016

Tennissamband Ísland hefur valið tennismann ársins og tenniskonu ársins 2016.

Niðurstaðan var einróma en atkvæðisrétt hafa allir í stjórn og varastjórn TSÍ ásamt starfandi landsliðsþjálfurum.

 

Anna Soffia Grönholm – Tennisfélagi Kópavogs

Anna Soffía hefur verið í fremstu röð íslenskra kvennspilara um árabil þrátt fyrir ungan aldur en hún er aðeins 17 ára gömul. Anna Soffía vann tvö af stærstu mótum ársins; Meistaramót kvenna í janúar og Meistaraflokk kvenna á Íslandsmóti utanhúss í ágúst ásamt því að vera efst á Stigalista TSÍ vegna ársins 2016. Anna Soffía hefur spilað vel í ár og sinnt æfingum og keppni af krafti.Hún tók þátt í ýmsum verkefnum á vegum TSÍ í ár en einnig ferðaðist hún talsvert á eigin vegum til að spila í ITF mótum innan Evrópu. Anna Soffia stefnir á að verða fyrsta íslenska tennisstúlkan til að komast inn á heimslista alþjóða tennissambandsins (ITF) 18 ára og yngri.

 

Rafn Kumar Bonifacius – Hafna- og mjúkboltafélag Reykjavíkur

Rafn Kumar hefur verið ósigraður hérlendis síðan ágúst 2014. Hann vann öll þrjú stærstu mót ársins; Meistaramót karla í janúar, Meistaraflokkur karla á Íslandsmóti Innanhúss í apríl og Meistaraflokk karla á Íslandsmóti Utanhúss í ágúst, auk þess að vera efstur á Stigalista TSÍ vegna ársins 2016. Rafn Kumar hefur æft af kappi í ár og ferðast talsvert þar sem hann hefur verið að spila í mótaröð atvinnumanna frá febrúar 2016. Markmið hans er að vera meðal bestu 500 spila heims fyrir lok ársins 2018.

Við óskum þeim innilega til hamingju.

 

Fyrir hönd Tennissambands Íslands,

Ásta M Kristjánsdóttir

Formaður